Kollsterinn

Er á meðan er ...best að njóta þess !

Nafn:

Kollsterinn

MSN netfang:

capt_kolla@hotmail.com

Afmælisdagur:

17.Janúar

Tenglar

27.01.2015 12:06

Er að bilast á biluninni

Þessi síða er hugsuð sem myndasíða fyrir þá sem langar að fylgjast með okkur familíunni eða mér og mínu fólki. 

Því miður þá hefur verið soldið um það að fólk komist ekki inn á ákveðin albúm og mikið af myndum birtist ekki. 

Ég er við það að bilast yfir þessu en fæ lítið um svör frá 123 fólki. 

Endilega ef þið þekkið til betri myndasíðu látið mig vita á mailið mitt (kollaskafta@gmail.com)

Á meðan anda ég bara rólega og vonast eftir svörum frá þeim sem ég borga fyrir að hafa þessa myndasíðu í gangi. 

Kv,
Kollsterinn

24.10.2014 22:33

Jólabækurnar

Finnst eins og ég sé alltaf bara ð blogga hér þegar jólin nálgast - kanski ekki nema von þar sem ég er mest skrifandi í tölvunni þegar líður að jólum. 

Ég er semsagt búin að birta minn fyrsta jólabókapistil inn á Kvennablaðinu og þeir sem hafa áhuga á að kíkja á það geta skoðað hann HÉR !

Annars bara gott að frétta úr Kolluheimi - við erum flutt í Laugarneshverfið síðan síðustu jól og ELSKUM að vera hér. Felix Skafti komin í Laugarnesskóla og búin að eignast hér heilt fótboltalið af vinum. Ég er ennþá í bókabúðinni og Áslaug ennþá í bíóbransanum. Ég sit í flestum lausum stundum við lestur og er að ELSKAÐA. 

Kem til með að birta þónokkra pistla fyrir þessi jólin þar sem bækurnar sem koma út í ár eru ekkert lítið flottar margar hverjar - er að lesa eina núna sem er alveg hrikalega spennandi. 

Er að hugsa um að birta bara linka hér inni - sé itl hvort ég komi til með að birta greinarnar í heilu lagi þegar líður á....ef einhver lestur er hér inni ennþá - veit það ekki alveg. 

Er svo að fara að demba mér í að sortera September myndirnar í tölvunni svo ég geti sett inn nýtt myndaalbúm ...það verður að vera eitthvað nýtt hér inni fyrst ég er orðin svona hrikalega léleg að blogga ! 

Kollsterinn...snemma í jólasullinu ..eins og IKEA 

14.02.2014 10:53

Kvennablaðið

Búin að smella inn einum dómi á Kvennablaðinu um unglingabókina Órar . 

Skrifaði þar líka um daginn pistill um íslenska kvenrithöfunda sem ég hvet ykkur eindregið til að skoða.

Hér má sjá greinarnar mínar inn á Kvennablaði.

Kollsterinn..Kvennablaðspenni

29.11.2013 09:16

Flutningur

Flutningar eru afstaðnir. En þar er ekki þar með sagt að maður geti bara sest niður og slappað af. Ó nei. 
Við vorum semsagt að flytja langt út fyrir Vesturbæinn í fallega íbúð í Laugarneshverfinu sem við erum báðar mjög sáttar við. 
Búnar að mála allt áður en flutt var inn en núna er er steingeitin í mér alveg að bilast. 
Ég vil helst að allt sé tilbúið og komið á sína staði alveg lágmark viku eftir að maður flytur inn. Ég myndi helst ekki vilja þurfa að gera neitt nema bara flytja inn og raða húsgögnunum á sína staði. 
Við eigum eftir að gera skrilljón hluti og allt er ennþá í kössum og ferðatöskum og allt út um allt. 
Elsku bestasta Áslaug mín heittelskaða er sveitt allann daginn að gera og græja, setja niður golflista, raða inn í eldhúsið, setja upp hillur, veggfesta kojuna hans Felixar , smíða baðskáp og svo margt margt fleira EN samt kemur tjellingin hennar (brjálaða steingeitin) heim á hverjum degi og horfir yfir íbúðina og finnst óvinnandi vegur að koma þessu öllu í lag. 
Þeir sem þekkja mig vita að ég er algjörlega snargeðveik á þessu "vilhafaalltfínt" sviði mínu. Ég er með strax-veikina á háu stigi og finnst fátt meira fullnægjandi heldur en að tæma úr kassa eða ferðatösku á SINN STAÐ. 
Þar sem ég hlakka mikið til þegar allt er orðið tilbúið og fínt þá hef ég til dæmis forðast það að svara símtölum frá foreldrum eða nánustu vinum ef ske kynni að þeir ætli að segja mér að þeir séu í nágrenninu og ætli að koma og kíkja á nýju íbúðina. NEI - það er engin að fara að koma í heimsókn fyrr en þeir fá boð, ég er ekki að fara að hleypa neinum inn að skoða innan um kassa og töskur og Ikea pakkningar . 
Það sem ég er að reyna að koma frá mér er kanski aðallega bara þakklæti til kærustunnar fyrir að umbera mig í þessu skapi og fyrir að vera svona sjúklega dugleg án þess að fá einu sinni "vá hvað þú ert búin að gera mikið" frá mér þegar ég kem heim. 
Svo hefur nú gæfan ekki beint verið okkar megin í þessu - og þá sérstaklega ekki í gær þegar ég loksins komst heim til mín. Fór að setja saman Ikea skápinn góða og komst þá að því í fyrsta lagi að lamirnar í honum eru rangar og í öðru lagi að það vantar hillurnar í hann . Svo ég gat ekki tæmt úr neinu inn í skápinn. SKAMM SKAMM Ikea. 
Ég held klárlega að Áslaug hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún sagði í gær að flutningurinn væri að taka töluvert meiri toll af mér heldur en barninu á heimilinu ! 

Áslaug - ég elska þig og þú ert snillingur og duglegust í heimi ! 

Þið hin - það er ekki heimsóknartími fyrr en ég segi það ;) 

Kollsterinn...snargeðveik steingeit.

20.11.2013 11:53

Kvennablaðið

Ég er semsagt farin að skrifa bókaumfjöllun fyrir Fréttablaðið. En ég mun samt áfram birta greinarnar hér líka um bækurnar . Skrifaði fyrir Miðjuna sem var og hét og missti þarafleiðandi fullt af bókadómum þegar sú síða fór á hausinn. Svo ég mun fyrir þessi jól skrifa fyrir frábæra Kvennablaðið en áfram birta dómana hér líka samferða því. 

Endilega kíkið á Kvennablaðið, þar er auðveldlega hægt að tapa sér í allskyns fróðleiksmolum og skemmtiefni :) 

Kollsterinn...kvennablaðsskrifari

19.11.2013 11:54

Og fjöllin endurómuðu


Bakhlið bókarinnar :

Örþrifaráð bláfátæks föður í litlu þorpi í Afganistan til að bjarga fjölskyldunni frá hungurdauða - að selja unga dóttur sína ríkum hjónum í Kabúl - setur mark sitt á litlu stúlkuna og eldri bróður hennar fyrir lífstíð. Ævilangt sakna þau hvort annars, vitandi og óafvitandi. Sögur þeirra spinnast yfir höf og lönd og fléttast öðrum sögum, öðru fólki, öðrum heimum.

En það sem hefur verið slitið í sundur leitar saman á ný og sárin gróa þótt eftir sitji óafmáanleg ör.

Og fjöllin endurómuðu spannar sextíu ára sögu fátæktar, stríðsátaka, landflótta: sögu Afganistan, sem um leið er saga fjölskyldna, hjartfólginna staða og fólks sem tekst á við veröldina með ólíkum hætti.Mikið sem mér þykir vænt um höfunda sem fá mig til horfa á lífið frá öðru sjónarhorni, sem minna mig á að lífið er svo ómetanlegt og dýrmætt, sem fá mig til að fella tár við lesturinn og upplifa fullt af tilfinningum. Khaled Hosseini er klárlega einn af þessum höfundum. Þetta er þriðja bókin hans og þó svo að Flugdrekahlauparinn sitji alltaf í minninu og sé með betri bókum sem ég hef lesið þá er þessi samt á einhvern óútskýranlegan hátt betri. Hún er dýpri að mér finnst og spannar meiri tilfinningar. Ég held hreinlega að þessi höfundur hljóti bara að vera alveg óendanlega góð manneskja. Ég settist niður við eldhúsborðið mitt heima hjá mér á meðan kærastan var að stússast í tölvunni og opnaði þessa bók, hugsaði með mér "þessi höfundur klikkar ekki..best að lesa nokkrar síður og fara svo í rúmið" Þessa kvöldstund sat ég í tvo tíma við eldhúsborðið og las. Ég beið spennt eftir matartímanum í vinnunni daginn eftir og hélt þá áfram að lesa. Ég kláraði að lesa hana í kvöld og gat ekki beðið með að skrifa um hana því það er alltaf best að skrifa þegar andagiftin er sem sterkust beint eftir lesturinn. 

Mig langar bara hreinlega að fara út og hjálpa fólki, mig langar að allir lesi þessa bók. Mig langar að hringja í mömmu og pabba og þakka þeim fyrir að vera hjartahlýir og góðir foreldrar og fyrir að hafa gefið mér lífið sem ég á. 

Ég er alveg mega væmin og meyr eftir þennan lestur. 

Langar líka í kjölfarið að hafa hér með smá brot úr bókinni sem situr í mér:

"Ég hefði átt að vera hlýlegri. það er eitthað sem maður sér aldrei eftir,. Þú segir aldrei við sjálfa þig þegar þú ert orðin gömul : O, ég vildi að ég hefði ekki verið góð við hann eða hana"

Hosseini tekst líka alveg merkilega að skrifa þannig að maður viti nákvæmlega hver hver og einn karakter í bókinni er , jafnvel þó þeir heiti allir nöfnum sem við erum ekki vön eins og Nahil - Idris - Pari - Abdullah. Það eru rosalega margir sem koma við sögu en það truflar mann aldrei eins og það vill gera stundum í bókum.

Þetta er að mínu mati besta þýdda bókin í ár - engin spurning.

Kollsterinn...drukkin af áhrifum bókarinnar

15.11.2013 22:19

Mánasteinn

Bakhlið á bókinni : 

Árið er 1918 og frá Reykjavík má sjá eldgosið í Kötlu mála himininn nótt sem dag. Lífið í höfuðstaðnum gengur sinn vanagang þrátt fyrir náttúruhamfarir, kolaskort og styrjöldina úti í hinum stóra heimi. Íslendingar búa sig undir að verða fullvalda þjóð.

Drengurinn Máni Steinn lifir í kvikmyndunum. Sofandi dreymir hann myndirnar í tilbrigðum þar sem vefur atburðanna er slunginn þráðum úr hans eigin lífi. Vakandi hefst hann við á jaðri samfélagsins.

En þá tekur spænska veikin land og leggur þúsundir bæjarbúa á sóttarsæng, sviptir hundruð lífinu. Skuggar tilverunnar dýpka. Í brjósti Mána Steins ólmast svartir vængir. Það súgar milli heima í veröld þar sem líf og dauði, veruleiki og ímyndun, leyndarmál og afhjúpanir vegast á.

Hér er á ferðinni bók sem er fljótlesin og auðlesin en í leiðinni ljóðræn og ótrúlega fögur. Ég er ótrúlega sammála samstarfskonu minni sem sagði að bókin náði henni í rauninni ekki fyrr en eftir að hún lauk við hana. Þessi bók situr ótrúlega fast í manni. Hún skilur eftir sig eitthvað ótrúlega magnað sem erfitt er að útskýra. Mæli klárlega með henni og mæli einnig með því að fólk tali ekki um hana við aðra meðan það les, heldur eingöngu eftir að það er búið að lesa og jafnvel farið að lesa eitthvað annað. 

Kollsterinn...segir fátt en hugsar margt.

13.11.2013 21:05

Freyju saga - Múrinn

Bakhlið á bókinni :

"Hversu oft hafði hún ekki óskað þess að hún hefði fæðst nokkrum kynslóðum fyrr, þegar fólk gat farið þangað sem það vildi, gert það sem það vildi, skapað sér þá framtíð sem það vildi; þegar fólk klæddist skræpóttum fötum því það langaði til þess og lifði ekki eftir einkunnarorðunum "öryggi umfram allt". Þegar það var enginn múr."

Borgin Dónol er í heljargreipum einvaldsins Zheng og lífvarðasveita hans. Freyja elst þar upp hjá ömmu sinni og veit ekki betur en að þær séu ósköp venjulegir íbúar en þegar hinir Utanaðkomandi taka skyndilega að birtast innan borgarmúrsins fer tilvera hennar á hvolf. Hverjir eru hinir Utanaðkomandi? Og hvað vilja þeir Freyju?

Múrinn er fyrsta bókin í sagnabálkinum Freyju sögu, ævintýralegum spennutrylli sem gerist í harðneskjulegri veröld þar sem hinir vægðarlausustu lifa af.

Ég las þessa bók á milli annarra bóka þar sem hún var ekki að ná mér nógu vel á fyrstu síðunum en mig langaði samt að klára hana svo hún var inni á kaffistofu í vinnunni minni og ég las hana svona inn á milli :) Seinnipartur bókarinnar er mun meira spennandi að mínu mati heldur en sá fyrri og bókin er mjög vel skrifuð, sem mér finnst skipta miklu máli alltaf en þá sérlega þegar bækur eru skrifaðar fyrir börn eða unglinga.

Ég held að þetta gæti vel orðið eitthvað sem unglingar gleypi í sig og bíði spenntir eftir næstu bók sem ég vona að sé tilbúin og komi út fyrr en seinna :) 


Kollsterinn...aðeins að kíkja í unglingabækurnar líka

11.11.2013 15:24

Árleysi alda

Svo ég haldi nú áfram að lesa út fyrir rammann minn þá er hér á ferðinni lítil dásamleg ljóðabók. Ég hef ekki lesið ljóðabækur síðan ég las held ég bara ljóðið Slysaskot í Palestínu í grunnskóla úr einhverri kennslubókinni og man það ennþá utanbókar. 
Hér er komin ljóðabók sem ég las spjaldanna á milli.
Hér eru stuðlar og höfuðstafir og allt eins og það á að vera í mínum ferkanntaða haus :) 
svona til að sýna hversu mikil snilld þetta er þá langar mig að birta hér brot úr bókinni (vona að ég sé ekki að brjóta á höfundi með þessu)

Bak við tjöldin í Kardemommubæ

Hann Bastían bæjarfógeð
brandara grófa og djók með
setti af prýði
saman með níði
-limrur sem öllum fannst ógeð.

Hann orti um durt nokkurn;dóna þann,
og drussa einn, þjófóttan ljónamann
og með þeim hinn þriðja
sem misjafnt vill iðja:
Kasper og Jesper og Jónatan.

í þessari vísu eru 3 erindi til viðbótar ...

Algjör snilld þessi litla bók.

Kollsterinn...ljóðaunnandi í dag 

06.11.2013 21:00

Við Jóhanna

Bakhlið á bókinni : 

Jóhanna Sigurðardóttir og Jónína Leósdóttir hafa alla tíð lagt kapp á að halda einkalífi sínu út af fyrir sig - en nú finnst þeim kominn tími til að opinbera þessa óvenjulegu og áhrifamiklu ástarsögu.

Þær voru báðar giftar þegar þær hittust fyrst árið 1983 og hvorug hafði átt í ástarsambandi við konu. Því var afar ólíklegt að þær yrðu nokkurn tíma par. Örlagarík fundaferð vorið 1985 markaði upphafið á stormasömu sambandi sem lengi fór leynt, enda ríktu töluverðir fordómar gagnvart samkynhneigðum í þjóðfélaginu á þessum árum.

En ástin sigraði að lokum. Eftir langa og oft stranga vegferð hófu Jóhanna og Jónína sambúð árið 2000 og tíu árum síðar breyttu þær staðfestri sambúð í hjónaband. Þá var Jóhanna orðin forsætisráðherra og þær Jónína þar með fyrstu samkynhneigðu forsætisráðherrahjón heims - sem vakti athygli um víða veröld.

Ég legg það ekki í vana minn að lesa ævisögur né endurminningar einfaldlega af því að ég helst ekki í þeim og finnst mun skemmtilegra að lesa skáldskap. En þessa bók langaði mig að lesa. Tvær ástæður voru fyrir að mig langaði að lesa bókina ; 1) Jónína Leósdóttir er í uppáhaldi hjá mér bæði sem rithöfundur og góð manneskja 2) þær Jóhanna eiga það sameiginlega með mér að elska einstakling af sama kyni :) 

Ég er ótrúlega glöð að hafa lesið bókina. Mér finnst hún vel skrifuð og einlæg í alla staði. Það er ótrúlegt hvað þessar konur hafa gengið í gegnum og ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss um að ég hefði í dag heft þessa þolinmæði sem þær höfðu . Mér finnst þetta vera ótrúlega þörf lesning, til þess að sýna okkur til dæmis hversu langt við hér heima á Íslandi höfum náð í réttindabaráttunni. Ég get ekki ýmindað mér að fá ekki að ganga við hlið konunnar minnar hvar sem ég er og leiða hana, eða geta ekki sagt "við Áslaug fórum út að borða" eða "við Áslaug erum að flytja" . Ég dáist að Jónínu og Jóhönnu að koma fram með söguna sína. 

Ég táraðist nokkrum sinnum í bókinni og þá aðallega þegar sigrar og gleðistundir voru annarsvegar.

Ef einhver er að velta því fyrir sig hvort bókin er pólitísk þar sem Jóhanna er stjórnmálakona í húð og hár þá er svarið samt NEI . Þetta er einlæg og sönn ástarsaga tveggja kvenna. Þessa bók hafa allir gott af því að lesa, gay or not.


Kollsterinn...stolf af þeim hjónynjum - J&J

31.10.2013 09:53

Glæpurinn

Bakhlið á bókinni : 

Öll þrjú höfðu beðið eftir þessum degi, kviðið fyrir honum og óttast hann.

Hann vill af veikum mætti standa við gefið loforð. 
Hún efast um að sannleikurinn geri þau frjáls. 
Fríða vill afhjúpa leyndarmálið sem splundraði lífi þeirra.

Þetta finnst mér algjörlega fullkomin texti aftan á bók sem má einmitt alls ekki segja of mikið áður en lesandinn sekkur oní bókina.  Hver jól hef ég lesið bók eftir Árna þegar hann hefur verið með í jólabókaflóðinu og þær renna alltaf frekar ljúflega í gegn. Þær eru hvorki verri né betri en aðrar bækur en bara svona fylgja með. 

Þessi bók er EKKI krimmi, þessi bók er ástarsaga eins og segir utan á bókinni og það með þeim betri sem ég hef lesið. Ég las bókina í einum rikk ...byrjaði að kvöldi og kláraði á hádegi daginn eftir. 

Það er lítið hægt að segja um innihaldið annað en að það er gott, virkilega gott. Ég er algjörlega sammalá gagnrýnendum í einu og öllu sem þeir segja um þessa bók. 

Virkilega ánægjuleg lesning sem kom mér mjög svo á óvart.

Ef þetta er það sem koma skal þessi jólin þá eru góð bókajól í vændum.


Kollsterinn...ánægð með Árna

24.10.2013 20:04

Dísusaga - konan með gulu töskuna

Bakhlið bókarinnar : 

Þegar loksins kemur að því að Dísa Gríms frá Kleppsveginum fær að skrifa sína fyrstu bók segir hún sögu sína umbúðalaust. Hún hefur heldur ekkert að fela. Sagan er mögnuð og segir frá stúlku sem tíu ára gömul verður fyrir ofbeldi og lokast inni í dýflissu þöggunar og feluleikja. Í fimmtíu ár sér hún enga útgönguleið, en dag einn fær hún frelsi hjá kúgara sínum og fyrrverandi bjargvætti til að skrifa, þó aðeins í tvo mánuði. Tíminn er naumur og Dísa ákveður að skrifa bréf til mannsins sem hún hefur alltaf elskað. En tekst henni að segja sannleikann?

Í Norðurfirði á Ströndum nýtur Dísa ómældrar gleði yfir öllu því sem náttúran og fólkið þar gefur henni til að takast á við ólgandi tilfinningar. Umlukt fjöllunum og sjónum og örygginu á Kaffihúsinu skrifar hún söguna og minningarnar streyma fram.

Þetta er saga Dísu, saga ofbeldis, einlægni og mannúðar. Þetta er líka sagan okkar; óvænt, hrífandi og dásamleg bók þar sem Vigdís Grímsdóttir víkur fyrir Dísu Gríms sem nú fær orðið.


Vigdís Gríms hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og því var ég mjög spennt að heyra að það væri að koma út semí-ævisaga um hana. Ég gat ekki beðið og fékk mér eintak sama dag og bókin kom úr prentun. Ég byrjaði á henni og fann strax að þetta var bók sem mig langaði ekki að lesa hratt. Mig langaði að sökkva mér ofaní hana og ég gerði það svo sannarlega. Allan tímann sem ég las bókina þá var ég  að hugsa um hana,  líka þegar  ég lagði hana frá mér og fór að gera annað. Og ég gríp mig ennþá í því að hugsa um hana í hinum og þessum aðstæðum. 

Þarna er Vigdís í fyrsta skipti að leyfa hinu sjálfinu sínu að skrifa , semsagt Dísu og mikið sem mér þykir strax orðið vænt um Dísu sem höfund. 

Ég get með sanni sagt að lestur þessarar bókar hafi að vissu leyti breytt lífi mínu og viðhorfi mínu til sjálfsins.

Mér fannst þegar ég las bókina algjörlega að þarna væru tvær manneskjur á ferðinni. Ég var jafnvel farin að skammast í huganum í Gríms fyrir að vera alltaf að trufla Dísu svona mikið. Ég hugsaði meira að segja á tímabili og nefndi það við vinkonu mína að mér findist svindl að Gríms sé skrifuð fyrir bókina...mér finnst hreinlega að það eigi að standa Dísa Gríms framan á bókinni en ekki Vigdís Gríms. 

Ef þú lesandi góður hefur ekki lesið bókina þá er þessi pistill eflaust nett ruglandi og meikar ekki sérlega mikið sens...en um leið og þú ert búin að lesa þá veistu hvað ég meina. Og já ég vil að þú lesir og gefir bókinni þann tíma sem hún þarf. 

Ég held að allir geti tengt við eitthvað í bókinni og þá sérlega samtölin sem Vigdís á við sjálfa sig, hver kannast ekki við að hafa verið í aðstæðum þar sem maður sagði eitt en hugsaði annað ?

Þessi bók er ótrúlega fallegur demantur í annars glæsilegt skartgripaskrín Vigdísar Grímsdóttur og ég vona af öllu mínu hjarta að Dísa fái að skrifa meira því hún er búin að eignast framtíðarlesanda í mér og ég er sannfærð um að allir sem þessa bók lesa langar í meira. Dísa er fyndin , einlæg , falleg og snilldarpenni...skil ekki hvað hún var að gera í felum allann þennan tíma.

Ég gæti setið hér og skrifað í allt kvöld ...mörg kvöld í röð ef út í það er farið en ég læt þetta duga í bili. Og ef þig langar að vita meira þá er ég alltaf til í gott spjall um af hverju ÞÚ átt að lesa þessa bók ! 

Kollsterinn...setur Dísu í  uppáhalds bunkann 

 

22.10.2013 21:47

Grimmd

Bakhlið á bókinni :

Hörður Grímsson rannsakar alvarlega líkamsárás á glæpaforingja en árásarmaðurinn, dópsalinn William Smári Clover, gengur laus. Smári er því bæði hundeltur af lögreglu og misindismönnum í hefndarhug. 

Á sama tíma rænir siðblindur maður mánaðargamalli dóttur sinn og ætlar með hana úr landi. Móðirin örvæntir þegar kerfið bregst en kallinu er svarar úr óvæntri átt. Leikurinn berst út á land og fyrr en varir streyma undirheimahrottar út á þjóðveginn og Hörður fylgir þeim fast á hæla - ungbarn er í lífshættu og tíminn að renna út. 

Þessi bók stendur klárlega undir nafni : Grimmd. Þessi bók er mjög grimm og ég verð alveg að viðurkenna að í byrjun bókarinnar var ég alvarlega að hugsa um að barasta loka bókinni og neita að lesa áfram, eins og ég geri stundum með sjónvarpsþætti og einstaka sinnum bækur þegar mér finnst viðbjóðurinn bara of mikill. Ég get alveg þolað allskyns blóðúthellingar en þegar lítil börn og misnotkun er partur af sögunni þá bara getur litla hjartað mitt yfirleitt ekki þolað það. En jæja..ég hélt nú samt áfram á bókinni því hún var spennandi og ég varð að fá að vita hvernig þetta færi nú allt saman. Sem betur fer þá minnkaði nú viðbjóðurinn töluvert og ég þurfti ekki að berjast við sjálfa mig meira. 

Ég hef alveg sagt það einlægt og heiðarlega að mér finnst oft erfitt að lesa bækur sem eru of lýsingarglaðar, þegar spennubækur eiga í hlut þá er mér eiginlega alveg sama hvernig nælurnar í brjóstvasa viðkomandi löggu líta út eða hvort það sé lágskýjað á heiðinni rétt áður en keyrt er undir eitthvað fjall sem lítur svona og svona út og allt það. Ég vil bara láta ímyndaraflið mitt sjá um umhverfið að mestu leyti og vita hvað er að gerast í sögunni.

Í þessari bók varð ég mjög sjaldan pirruð á lýsingum. Það kom alveg fyrir að ég gæti stokkið yfir eins og eina blaðsíðu en samt ekkert misst af söguþræðinum en ég fór líka inn í þennan lestur vitandi að þetta væri höfundur sem væri þekktur fyrir mjög nákvæmar lýsingar á fólki og stöðum. 

Mér fannst þetta í heildina bara þrusugóð spennubók, ég tók hana með mér í ferðalag sem ég fór í austur á land og kláraði hana þar þrátt fyrir fínasta félagsskap og meira að segja eitt kvöldið þegar ég var alveg að verða búin þá spurði ein vinkona mín "ertu kanski að lesa eitthvað spennandi Kolla mín" og svo hlógu þær því ég var víst eitthvað nett spennt á svipinn og varla andaði. 

Kollsterinn...Spennan yfirtók Grimmdina 

22.10.2013 21:32

Tími bókanna

Eins og titill færslunnar gefur til kynna þá dregur nær og nær jólum þar á bæ sem bækurnar búa. Þá er nú ekki seinna vænna en að reyna að láta þetta blogg lifna við og skríða undan hýði sínu ...
Ég er komin í lestrargírinn og þó svo að ég lesi nú nokkuð mikið allt árið um kring þá er þetta sá tími sem hvað mest kemur út og ég nýt þess út í ystu æsar. 
Þannig að ég ætla ekkert að bregða út af þeirri hefð minni (ég elska hefðir) að skrifa um þær bækur sem mér finnst eitthvað spunnið í. Ég tek það fram eins og ég hef áður gert að ég les mun meira en það sem ég skrifa um og hef aldrei haft og efast um að ég komi til með að hafa nokkurn einasta áhuga á að því að skrifa um þær bækur sem mér finnst ekkert varið í. Einstaka sinnum hefur það komið fyrir að ég hafi talið upp þær bækur sem ekki varð til pistill um en eingöngu af ósk frá lesanda. Núna ætla ég ekkert að telja þær upp hér sem ég ekki vil skrifa um heldur getur fólk farið inn á goodreads.com og flett mér upp þar , þar er hægt að sjá allt sem ég er að lesa , jafnvel þó ég skrifi ekki um það hér ;) (nú svo má alltaf líka bara bjalla í mig eða senda mér prívat póst á andlitsbókinni)
Ég er núna á annarri bókinni minni sem kemur út fyrir þessi jólin og þetta byrjar  vel. Mjög vel.

En áður en ég byrja á svokölluðum Jólabókum þá langar mig samt að mæla með nokkrum kiljum sem ég hef nýlega lesið og eru vel þess virði að á þær sé minnst sem oftast og þar á meðal hér ...

 þessi krúttubók er alger gullmoli. Ove er algjörlega óþolandi karakter sem tókst á fyrstu blaðsíðum bókarinnar að gera mig sjúklega pirraða og langa til að loka bókinni, en hann er samt svo yndislegur. Þessi bók fékk mig til að vera reiða - leiða - sára , fékk mig til að hlægja upphátt og upplifa allskonar tilfinningar á meðan á lestri bókarinnar stóð. Þessa verða barasta allir að lesa.

Þessari hefur ekki farið eins mikið fyrir og Ove. Hún fékk líka því miður alveg afleita dóma hjá Friðriku Benónýsdóttur. En hey Friðrika eins og við hin er bara ein manneskja með eitt álit og ég vona svo sannarlega að fólk hætti ekki við lestur á þessari bók vegna dómsins sem hún fékk. Hér er mitt álit : Þetta er dásamleg, vel skrifuð og vönduð bók sem á heima í hjarta góðs fólks sem finnst gaman að lesa. Held reyndar klárlega að hún höfði meira til kvenna en karla sem það fólk sem ég hef sagt frá þessari bók hefur ekki séð eftir lestur hennar. Meira að segja einn kúnni kom til mín eftir að hafa lesið þessa bók og spurði mig hvort ég gæti ekki verið svo væn að finna handa henni aðra svona "virkilega góða" eins og ég fann um daginn. 

Nú síðast í þessari færslu en ALLS EKKI SÍST kemur að mínum uppáhalds erlenda rithöfundi. Ég verð að monta mig smávegis og segja frá því að ég hafði pínku ponsu áhrif á það á sínum tíma að Forlagið færi að þýða þennan höfund. Þessi bók eins og allar bækur Picoult fjalla um erfið málefni. Par ákveður að fremja sjálfsmorð en bara annað þeirra deyr. Trúa foreldrar þess dána að sagan sé rétt ? Hvað hefðir þú gert ef þetta væri þitt barn ? Er meira á bakvið sannleikann ? Svo margar spurningar vakna alltaf þegar maður les bækur eftir Jodi Picoult og ég sekk algjörlega inn í þær enda nett gefin fyrir svona "drama" . Bók sem ég las í einni lotu og sú lota var ekki löng.

Jæja...þetta var nú bara svona nett upphitun. 

Kollsterinn....komin í JólaBókaGírinn

09.08.2013 13:16

Áfram Hinsegin

Nú þegar Hinsegin dagar standa yfir þá get ég ekki orða bundist, enda svosem alveg komin tím iá smá bloggfærslu. Ég ætla engan vegin að lofa að þessi pistill verði eitthvað málefnalegur en hann verður í það minnsta skrifaður algjörlega frá hjartanu og af fullri einlægni.
Ég er samkynhneigð og kanski algjörlega óþarfi að taka það fram þar sem það fer ekki framhjá neinum sem skoðað hefur þetta blogg eða þekkir mig það minnsta :) 
Þegar ég kom út úr skápnum þá tóku því allir í kringum mig alveg ótrúlega vel, langtum flestir af mínum nánustu vinum og fjölskyldumeðlimum komu reyndar ekkert af fjöllum enda búnir að hafa grun um þetta í þónokkurn tíma. 
Fyrsta manneskjan sem ég eiginlega óvart sagði frá þessu heitir Auður Rán og vann með mér í Eymundsson á þeim tíma. Ég var að spjalla við hana þegar það allt í einu datt upp úr mér að ég gæti mögulega verið soldið skotin í stelpu sem ég var mikið að hanga með og var eiginlega nýbúin að kynnast. Sú stelpa var reyndar ekki lesbía en það skipti engu. Ég sagði þessari vinkonu minni líka þegar ég allt í einu gerði mér grein fyrir vægi þess sem ég sagði að ég væri nú samt ekkert endilega lesbía heldur væri þetta eflaust bara tvíkynhneigð og eitthvað sem hefði alveg komið aftan að mér (sem er ekki satt því ég hafði alveg verið skotin í stelpum áður, bara aldrei talað um það við neinn). Auður Rán sagði mér bara að það væri dásamlegt og spurði mig um þessa stelpu sem um ræðir ..svo hélt samtalið bara áfram eins og ekkert hafði í skorist , hún fór að tala um eitthvað allt annað og það var bara eins og ég hefði sagt henni að ég væri ánægð með brauðið sem ég keypti mér . Viðbrögðin hennar við þessu voru ástæða þess að mig langaði allt í einu ekkert að eiga þetta leyndarmál lengur, leyndarmálið um það hvernig mér leið í raun og veru. 
Allt sem gerist eftir þetta er í nettri móðu , ég man eftir sumum viðbrögðum meira en öðrum einfaldlega af því að sumir voru bara búnir að bíða eftir að ég hundskaðist út. 

Þegar ég sagði Diljá vinkonu minni frá þessu þá varð hún óstjórnlega glöð og fagnaði með mér eins og hefði unnið í Lottó, hún sagði mér að hún og Svanhvít hefðu einmitt verið að tala um bara helgina áður hvað þeim fyndist leiðinlegt að ég væri ekki komin út úr skápnum og þær væru svo vissar um að ég væri ekkert á leiðinni út, þeim fannst það svo hræðilegt því þeim fannst þetta skipta svo miklu máli upp á að ég gæti verið einlægt hamingjusöm í lífinu. 

Þegar ég sagði Steinu frá þessu sem ég bjó mikið hjá á þessum tíma þá sagði hún bara "loksins" og sagðist hafa vitað þetta síðan ég byrjaði að passa fyrir hana, síðan við í raun kynntumst þegar ég var unglingur. hún sagðist líka þekkja stelpu sem væri lesbía og voða sæt, spurði pennt hvort ég vildi ekki "hitta" hana . Ég var nú samt ekki alveg tilbúin að það.

Margir eiga rosalegar sögur af því þegar þeir sögðu foreldrum sínum frá. Mín er hrikalega lítil, sæt og falleg eiginlega bara.

Ég bað mömmu og pabba um að koma og tala við mig, ég man að ég var inn í þeirra herbergi og hjartað á mér ætlaði út úr líkamanum. Ég sagði held ég "ég verð að segja ykkur að ég er hérna samkynhneigð/lesbía"
Pabbi sagði bara að það kæmi sér nú ekkert sérlega á óvart og fannst þetta ekki vera neitt sem þyrfti að ræða neitt sérstaklega, ég væri nú samt bara ég. Mamma spurði hvort ég væri alveg viss, hvort þetta væri kanski bara eitthvað "tímabil" sem myndi ganga yfir. Ég sannfærði hana um að svo væri ekki og þá eins og pabbi fannst henni málið bara útrætt. Svo fór mamma að elda og pabbi settist við skrifborðið sitt. Þar með var því lokið og ekkert við þetta var erfitt. 
Þau þurftu engan tíma til að melta þetta og þau eru í alla staði bara dásamlegir foreldrar og að ég tali nú ekki um amma og afi í dag ;) 

Hér áður fyrr fannst mér einlægt að Hinsegin dagar væri bara skemmtun og í raun væri engin sérstök þörf á neinni baráttu lengur, einfaldlega af því að ég hafði og hef það svo gott og hef ekki mætt neinum fordómum út af minni samkynhneigð , ég var soldið lokuð inn í mínum bómullarheimi fyrstu árin eftir að ég kom út í rauninni.
EN einmitt vegna þessa er þörf á Hinsegin dögum, einmitt þess vegna mæti ég samviskusamlega í gönguna og fagna fjölbreytileikanum. Einmitt vegna þess að ég hef það gott og fæ að vera eins og ég er. Því það er alltof mikið af fólki út um allann heim sem EKKi hefur það gott, sem kýs að enda líf sitt frekar en að þurfa að horfast framan í foreldra sína og segja þeim hvernig þeim líður. Vegna þess hversu meyr og þakklát ég er fyrir mitt líf þá langar mig einmitt að gera eitthvað , hversu lítið sem það er til þess að annað fólk út í heimi geti átt einhvern mögulega á að fá líf eins og ég og svo margir eiga hér heima á Íslandi.

Svo eru fullt af öðrum málum sem mig langar að skrifa um eins og Rússarnir - Þjóðkirkjan og fleira en ég læt það eiga sig því mér fer yfirleitt best að skrifa bara um mín eigin mál. Pólitík fer fram annarsstaðar. 

Kollster...Þakklát, meyr og hrópandi samkynhneigð LesPía ;) 

Flettingar í dag: 25
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 988224
Samtals gestir: 194291
Tölur uppfærðar: 22.5.2019 05:30:51
eXTReMe Tracker